Hagnaður Arion banka 12,8 milljarðar

Hagnaður Arion banka á árinu 2009 nam 12,8 milljörðum króna eftir skatta.  Arðsemi eiginfjár var 16,7%. Enginn arður verður greiddur til hluthafa bankans árið 2010 vegna hagnaðar hans á síðasta ári.

Með yfirtöku Kaupskila á 87% hlut í Arion banka þann 8. janúar sl. styrktist eiginfjárstaða bankans þar sem Kaupskil lagði bankanum til nýtt eigið fé ásamt því að ríkið veitti bankanum víkjandi lán. Við þetta fór eiginfjárhlutfall bankans úr 13,7% í lok árs 2009 í 16,4%. Fjármálaeftirlitið gerir nú kröfu um 16% eiginfjárhlutfall.

Verðmæti lánasafns eykst um 10,3 milljarða

Rekstrartekjur námu alls 49,6 milljörðum króna á árinu. Hreinar vaxtatekjur námu 12,1 milljörðum króna og hreinar þóknunartekjur námu 5,9 milljörðum króna. Nettóbreyting á lánasafni nam 10,3 milljarða króna en þar er bæði tekið tillit til virðisaukningar vegna líkum á betri endurheimtum og virðisrýrnunar sem hefur orðið á lánasafninu.

Þá eru 10,6 milljarða króna gjöld tilkomin vegna samningsbundinnar lækkunar á kröfu bankans á Kaupþing vegna hlutdeildar Kaupþings í virðisaukningu hluta þeirra eigna sem færðar voru frá Kaupþingi til Arion banka haustið 2008, að því er segir á vef bankans.

Tekjur frá dótturfélögum minni en laun og rekstrarkostnaður

Tekjur frá dótturfélögum sem bankinn hefur tímabundið tekið yfir eru 17,8 milljarðar króna. en þar á móti koma laun og rekstrarkostnaður þessara félaga samtals að fjárhæð 18 milljarðar. Gengishagnaður nam samtals 10,3 ma.kr. sem skýrist einkum af 7,6% veikingu íslensku krónunnar gagnvart gengisvísitölu Seðlabanka Íslands á árinu 2009 og neikvæðum gjaldeyrisjöfnuði bankans.

Í árslok 2009 voru 1.096 stöðugildi hjá bankanum. Heildareignir námu 757,3 ma.kr. í lok árs 2009 samanborið við 641,2 ma.kr. í lok árs 2008. Helstu breytingar á eignum bankans má rekja til endurgjalds vegna yfirtöku skuldbindinga vegna innlána SPRON og eigna og skulda Sparisjóðs Mýrasýslu á fyrri hluta ársins 2009 ásamt veikingu íslensku krónunnar, að því er segir á vef bankans.

Heildarútlán til lánastofnana og viðskiptavina námu 396,2 ma. kr. en innlán voru 609,1 ma.kr. í árslok 2009.

Þann 8. janúar 2010 þegar Kaupskil tók yfir 87% hlutafjár Arion banka jókst eigið fé bankans úr 90,0 ma.kr. í 93,9 ma.kr. Á sama tíma jukust heildareignir bankans um 80,2 ma.kr. í 837,6 ma.kr. Lánabók bankans óx um 112,8 ma.kr. en skuldabréfaeign lækkaði um 32,6 ma.kr. þar sem ríkið fékk 87% af hlut sínum greiddan til baka.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka segir um uppgjörið: „Ársreikningurinn sýnir að bankinn er vel í stakk búinn að takast á við þær áskoranir sem eru framundan í efnahagslífi landsins. Áhersla hefur verið lögð á að styrkja verkferla, verklagsreglur og innra eftirlit. Starfsfólk hefur lagt hart að sér við að leysa mörg vandasöm og flókin verkefni og það er ljóst að það er erfitt ár að baki bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini bankans. Afkoma bankans er ásættanleg og eiginfjárhlutfall samræmist kröfu Fjármálaeftirlitsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK