Þýski bankinn Landesbank Baden-Württemberg (LBBW) hefur tilkynnt fjármálaráðherra að langt muni líða þar til íslenska ríkið njóti trausts á ný meðal alþjóðlegra fjármálastofnana.
Það sé meðal annars vegna vinnubragða hins opinbera í endurskipulagningu Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík, en eignir beggja sjóða hafa verið færðar á nýja kennitölu.
Erlendir kröfuhafar eru sagðir telja furðu sæta að ríkið hafi tekið yfir sjóðina tvo, í ljósi þess að fáum dögum áður sagði í bréfi stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að endurskipulagningu sjóðanna myndi ljúka innan skamms.Endurskipulagningaráætlun mun hafa verið samþykkt í ágúst síðastliðnum af öllum kröfuhöfum. Þegar ganga átti endanlega frá samkomulaginu í október setti ríkið ný skilyrði eiginfjárinnspýtingar, sem voru ekki talin viðunandi. „Þau fólu í sér nýjar og gjörbreyttar forsendur varðandi afskriftir og endurgreiðslu skulda,“ segir Arnar Þór Jónsson, lögmaður þýsks banka sem átti hagsmuna að gæta í Byr.