Allt hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Tali (IP fjarskiptum ehf.) verður selt í opnu útboðsferli sem hefst með birtingu auglýsingar um miðjan maí. Teymi, móðurfélags Tals, er í eigu Nýja Landsbankans (NBI) og er bankinn skuldbundinn til að selja eignarhlut sinn í Tali vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins.
Öllum fjárfestum sem uppfylla lagaskilyrði um fagfjárfesta stendur til boða að bjóða í hlutaféð, öðrum en þeim sem hafa markaðsráðandi stöðu á fjarskiptamarkaði.
Áhersla verður lögð á að söluferlið verði opið, gagnsætt og auðskilið, að því er segir í tilkynningu. Verðbréfafyrirtækið Tindar verðbréf mun annast söluna.
NBI fer með 82 prósenta eignarhlut í Tali eftir að hafa tekið yfir félagið Fjallaskarð (áður Capital Plaza ehf.) sem var í eigu Jóhanns Óla Guðmundssonar, en það félag fór með tæplega 32 prósenta hlut í Tali. Þá á bankinn meirihluta í Teymi sem á 51 prósents hlut í Tali.
Teymi skuldbatt sig til þess að selja 51 prósents eignarhlut sinn í Tali með sátt sem það gerði við Samkeppniseftirlitið í júlí á þessu ári vegna samkeppnisbrota sem fyrirtækið varð uppvíst að sem meirihlutaeigandi í Tali. Sölutilraunir áttu að hefjast „sem fyrst“. Þær hafa þó ekki hafist, en Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að áhugi sé á Tali meðal fjársterkra fjárfesta sem telja fyrirtækið eiga mikla möguleika.
Eignarhlutur NBI í bæði Teymi og IP Fjarskiptum (Tali) er undir Vestia ehf., dótturfélags Landsbankans.Tal er þriðja stærsta fjarskiptafyrirtækið á Íslandi og varð til við samruna Hive og Sko árið 2008.
Gert er ráð fyrir að söluferlið, sem verður kynnt nánar með auglýsingu síðar, hefjist um miðjan maí og að því ljúki fyrir lok júní.