Ekki er enn ljóst nákvæmlega hver ástæðan var fyrir handtöku þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar, fyrir utan að rannsóknin snúi m.a. að meintu skjalafalsi, auðgunarbrotum og markaðsmisnotkun. Hreiðar Már var forstjóri Kaupþings og Magnús var forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ítarlega fjallað um þátt Kaupþings í viðskiptum með eigin hlutabréf og einnig um skuldabréfaviðskipti sem áttu að hafa áhrif á skuldatryggingaálag bankans.
Skuldatryggingaálag á bréf Kaupþings hafði hækkað stöðugt árið 2008 og töldu stjórnendur bankans að hækkunin væri óeðlileg og byggðist á litlum sem engum viðskiptum, heldur aðeins tilboðum á markaði.
Tvö félög, Chesterfield United og Partridge Management Group, fengu að kaupa lánshæfistengd skuldabréf, útgefin af Deutsche Bank, fyrir 125 milljónir evra hvort. Í upphafi átti þriðja félagið, Brooks Trading, að taka þátt í þessum viðskiptum, en ekki verður séð að af því hafi orðið. Var ætlunin að lækka skuldatryggingaálag Kaupþings.
Á stuttu tímabili lánaði Kaupþing því alls 510 milljónir evra í þessi skuldatryggingaviðskipti og fóru þær allar beint til Deutsche Bank. Eigendur félaganna komu ekki með neitt eigið fé, heldur voru viðskiptin öll fjármögnuð af Kaupþingi.
Hreiðar Már sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að þessi viðskipti hefðu haft áhrif á skuldatryggingaálagið, sem hann segir að hafi lækkað um 2-3 prósent.
Þegar sú deild Kaupþings sem sá um eigin viðskipti er skoðuð sést að mikið ójafnvægi er á milli kaup- og sölutilboða deildarinnar í tilboðabók kauphallarinnar. Styður það þá kenningu að markmið viðskiptanna hafi verið að hafa áhrif á verð hlutabréfa bankans.
Þá vekur athygli hve oft Kaupþing í Lúxemborg er skráður kaupandi á bréfum móðurfélagsins. Má gera ráð fyrir því að hlutirnir hafi verið keyptir fyrir hönd einhverra viðskiptavina bankans. Þegar skýrslan var birt hafði nefndin ekki fengið nánari upplýsingar um ákveðin viðskipti fyrir eigin reikning Kaupþings í Lúxemborg. Alls keypti dótturfélagið 3,27 prósenta hlut í Kaupþingi. Var því um að ræða verulega hlutdeild í bankanum þar sem raunverulegt eignarhald var ekki þekkt.
Holt Investment, félag í eigu Skúla Þorvaldssonar, var viðskiptavinur í eignastýringu í Lúxemborg og var eitt þeirra sem fengu lán til að kaupa bréf í bankanum. Alls fékk Holt lánaða 18,2 milljarða króna til kaupa á bréfum og námu keypt bréf umfram seld 15,6 milljörðum. Athygli vekur hins vegar að í september keypti Holt, aftur með láni frá Kaupþingi, bréf af bankanum sjálfum fyrir 2,6 milljarða króna. Ellefu dögum síðar keypti bankinn þessi bréf aftur og þá á hærra verði. Hagnaður Holts af viðskiptunum var um 90 milljónir króna.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur ekki svarað kalli sérstaks saksóknara um að flýta komu sinni til landsins vegna fyrirhugaðrar yfirheyrslu, samkvæmt frétt Stöðvar 2.