Rúmlega hálf önnur milljón bandarískra kvenna hyggjast fara í stærstu hópmálsókn í sögu landsins gegn verslunarmiðstöðinni Wal-Mart. Fyrirtækið, sem er einn stærsti atvinnurekandi landsins í hópi einkarekinna fyrirtækja, er sakað um kynjamisrétti. Talið er að málshöfðunin komi til með að kosta Wal-Mart marga milljarða.
Sú sem fer fyrir hópmálsókninni er hin sextuga Betty Duke. Hún er ásamt hópi annarra kvenna á á besta aldri, orðin þreytt á því að stöðugt sé framhjá sér gengið þegar kemur að stöðu- og launahækkunum þrátt fyrir að hún hafi árum saman unnið flekklaust starf innan fyrirtækisins.
Konunum hefur aldrei boðist stöðuhækkun og þær hafa heldur aldrei fengið launahækkun. Sökum þessa hyggjast 1,6 milljón miðaldra kvenna, sem ýmist vinna hjá Wal-Mart nú um stundir eða hafa unnið hjá fyrirtækinu síðan 1998 fara í mál við fyrirtækið.
Betty Dukes, sem er talsmaður hópsins, hefur unnið á kassa í Wal-Mart síðan 1994 og hefur á þeim tíma aðeins fengið sem samsvarar rúmlega þúsund íslenskum krónum á tímann. Hún hefur ítrekað upplifað að laun hennar hafi verið lækkuð og hún verið færð neðar í valdastiga fyrirtækisins.
Talsmenn Wal-Mart segja að launamál og lækkun hennar í tign innan fyrirtækisins skýrist af því að Betty Dukes hafi einu sinni komið of seint úr mat. Í annað skipti hafi hún beðið samstarfsfélaga sinn um að gera upp kassann fyrir hana og sökum þessa hafi hún verið lækkuð í tign.
Betty Dukes vinnur ennþá hjá fyrirtækinu. Sjálf telur hún að stjórnendur Wal-Mart hafi refsað henni allt of harkalega og segist sannfærð um það tengist þeirri óopinberri stefnu fyrirtækisins að leyfa karlmönnum að hljóta framgang. Og hún er greinilega ekki ein um þá skoðun.