Helstu hlutabréfavísitölur hafa hækkað mikið í morgun eftir að tilkynnt var um stofnun neyðarsjóðs til bjargar illa stöddum evru-ríkjum. Í París hefur CAC vísitalan hækkað um 7,93%, DAX í Frankfurt hefur hækkað um 4,31% og FTSE í Lundúnum um 4,45%.
Seðlabanki Evrópu kynnti í dag áætlun um að kaupa opinberar skuldir evruríkja en það er hluti þeirrar áætlunar sem leiðtogar og fjármálaráðherrar aðildarríkja Myntbandalags Evrópu samþykktu um helgina.
Í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 2,64%, Nikkei í Japan hækkaði um 1,6% og í Shanghai hækkuðu hlutabréf einnig í dag.
Í minnisblaði sérfræðings hjá Royal Bank of Scotland kemur fram að björgunarpakkinn sé sá stærsti í sögunni til þess að styðja við bakið á Evrópu. Þetta sé jafnvel meiri stuðningur heldur en fólst í Marshall áætluninni eftir stríð ef tekið er tillit til verðbólgu.