Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins drógu fram stórskotaliðið aðfaranótt mánudags. Tilgangurinn var að hefja gagnsókn gegn spákaupmönnum og öðrum þeim sem hafa dirfst að efast um greiðsluhæfi skuldsettra evruríkja á borð við Grikkland og Portúgal. Stórskotaliðið er í þetta sinn vopnað 750 milljarða evra björgunarsjóði sem skuldsett ríki í Evrópu mega draga á gegn skilyrðum um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum lokist skuldabréfamarkaðir.
Þessari aðgerð var í fyrstu fagnað með miklum lúðrablæstri á mörkuðum en þegar líða tók á vikuna dró ský fyrir sólu á ný og efasemdir um björgunarsjóðinn skutu upp kollinum. Í raun og veru eru þær efasemdir skiljanlegar. Hugmyndin að baki sjóðnum er sambærileg við útfærsluna á 110 milljarða evra neyðarláni til grískra stjórnvalda. Lánið gerir stjórnvöldum í Aþenu kleift að endurfjármagna þá gjalddaga sem falla á næstu árum gegn því að þau hrindi í framkvæmd víðtækum niðurskurðaraðgerðum. Ráðast verður í niðurskurðinn á sama tíma og hagvaxtarhorfur eru vægast sagt slæmar vegna versnandi samkeppnishæfni hagkerfisins og þar af leiðandi mun Grikkland standa upp skuldsettara en áður með minna hagkerfi þegar neyðaraðstoðinni lýkur.
Grikkland var á barmi greiðslufalls áður en neyðarlánið var samþykkt og fæstir eiga von á því að staða ríkisins verði betri eftir þrjú ár þegar skuldirnar verða meiri og hagkerfið minna. Það er því ekki að furða að þróunin á verðlagningu grískra ríkisskuldabréfa og á skuldatryggingaálagi ríkisins endurspeglar enn þá umtalsverðar væntingar um greiðslufall. Margir líta á neyðarlánið eingöngu sem brúarlán sem veitir einungis gálgafrest og á endanum verði ekki komist hjá því að fella niður hluta skulda gríska ríkisins.
Á sama tíma og óveðursskýin hrönnuðust upp yfir Grikklandi voru teikn um að ókyrrðin myndi berast til annarra skuldsettra evruríkja og óttuðust menn fyrst og fremst um Portúgal og Spán í þeim efnum. Þó svo að skuldastaða þessara ríkja sé bærilegri en Grikklands þá búa þau bæði við mikinn fjárlagahalla og slæmar efnahagshorfur. Hækkandi ávöxtunarkrafa á skuldabréf þessara ríkja vegna ótta fjárfesta um stöðu mála hefði getað leitt til þess að skuldastaðan yrði fljótt ósjálfbær.
Leiðtogar Evrópusambandsins voru fyrst og fremst að reyna afstýra þessari þróun með aðgerðum sínum um helgina. Það er að segja að reyna afstýra því að greiðslufall Grikklands myndi leiða til falls spilaborgar skuldsettustu evruríkjanna. En hinn boðaði neyðarsjóður leysir ekki nein af þeim grundvallarvandamálum sem steðja að evrusvæðinu. Eins og fyrr segir mun veiting neyðarlána byggjast á svipuðum skilyrðum og lánin til Grikklands og þar af leiðandi er aðeins um brúarlán að ræða vegna hefts aðgengis að fjármálamörkuðum samhliða niðurskurðaraðgerðum og þar af leiðandi breyta þau engu vegna sjálfs skuldavandans. Í versta falli gera lánin skuldavandann meiri ef eitthvað er.
Hvorugur þessara valmöguleika telst líklegur.
Í ljósi þessa er vert að spyrja hvers vegna aðildarríki ESB ákváðu að fara þessa leið? Hvaða vanda var verið að leysa ef ekki skuldavanda verst stöddu evruríkjanna? Svarið við þessum spurningum er meðal annars að finna í verulegum stöðutökum evrópskra banka í ríkisskuldabréfum þeirra evruríkja sem standa hvað verst um þessar mundir. Þetta á ekki síst við þýska og franska banka þó svo að bankar frá fleiri þjóðríkjum hafi verið stórtækir í slíkum fjárfestingum. Í raun og veru hefur Evrópski seðlabankinn stuðlað að þessum kaupum með því að bjóða bönkum á evrusvæðinu aðgengi að ótakmörkuðu lánsfé á afar lágum vöxtum. Bankarnir hafa nýtt þessa fjármögnun til þess að kaupa upp ríkisskuldabréf verst stöddu evruríkjanna og hafa með því innheimt það sem virtist vera áhættulaus ávöxtun. Nú er auðvitað komið á daginn að áhættan er veruleg og hefur þróunin á skuldabréfamörkuðum undanfarna mánuði skaðað efnahagsreikning þeirra banka sem hafa verið stórtækastir í þessum kaupum. Greiðslufall Grikklands og enn frekara verðfall á skuldabréfum Miðjarðahafsríkjanna sem eru á evrusvæðinu hefði því getað orkað sem þung höggbylgja á evrópska bankakerfið.
Áhrif þróunarinnar á skuldabréfum á efnahagsreikning mikilvægra banka á evrusvæðinu hefur sennilega ráðið miklu um að samstaða náðist um aðgerðirnar sem voru kynntar á sunnudag. Sennilegt má teljast að þær dugi til þess að standa vörð um þennan þátt málsins þó svo að þær stuðli ekki að lausn skuldavanda verst stöddu evruríkjanna.
En hvað um langtímahorfurnar? Kenneth Rogoff, hagfræðiprófessor við Harvard-háskóla, lét þau orð falla á dögunum í útvarpsþættinum On Point sem er á bandarísku almannaútvarpsstöðinni NPR að hugsanlega vonast þungavigtarmenn á vettvangi evrópskra stjórnmála til að innan fárra ára verði ytri aðstæður hagstæðari til þess að greiða úr skuldavanda ríkja á borð við Grikkland, Portúgal og Spán. Neyðarsjóður ESB sé því einhverskonar biðleikur. Ekki bendir þó margt til þess að þær vonir rætist á næstunni og má í því samhengi vísa til spá AGS um þróunina á skuldastöðu ríkja Evrópu á næstu árum. Sérfræðingar sjóðsins telja að hlutfall opinberra skulda af landsframleiðslu muni hækka mikið á næstu árum og ef það gengur eftir þýðir það eðli málsins samkvæmt að aðildarríki evrusvæðisins munu hugsanlega ekki vera aflögufær þegar þar að kemur. Aðeins lítill hluti af þeim ríflega 700 milljörðum evra sem eiga að renna í neyðarsjóðinn er til staðar nú og því er mikið verk óunnið þegar kemur að fjármögnun sjóðsins. Uppi eru efasemdir um að það muni takast að fullu þegar gengið verðu á hann.
Vandinn sem evrusvæðið stendur frammi fyrir er því mikill og vandleystur nema til breytinga sem stuðla að aukinni samþættingu efnahagsstefnu aðildarríkjanna. Enn sem komið er hafa ekki verið stigin stór skref í þá átt.