Afkoma Eimskipafélags Íslands eftir skatta var jákvæð um 2,3 milljónir evra, jafnvirði 423 milljónir króna, á síðasta ársfjórðungi ársins 2009. Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var 1,9 milljónir evra eða um 329 milljónir króna.
Eimskip fór í gegnum heildar endurskipulagningu á árinu 2009. Í tengslum við endurskipulagninguna tóku kröfuhafar og nýr fjárfestir yfir flutningastarfsemi félagsins þann 1. október 2009 og skipuðu nýja stjórn. Hluthafar félagsins eru nú 74 talsins, gamli Landsbankinn fer með 37% hlut og bandaríski fjárfestingasjóðurinn Yucaipa fer með 32% hlut en sjóðurinn kom að endurskipulagningu félagsins með því að fjárfesta í frystigeymslustarfseminni í Norður Ameríku og leggja inn nýtt hlutafé í endurskipulagt félag.
Eimskip er með starfsemi í 16 löndum og hefur á að skipa 1250 starfsmönnum, þar af vinna um 730 starfsmenn á Íslandi. Stefna félagsins er að veita öfluga flutningaþjónustu á Norður Atlantshafi ásamt því að bjóða víðtæka frystiflutningsmiðlun. Um helmingur af tekjum félagsins koma frá starfsemi utan Íslands.