Hlutabréf hafa hrapað í verði í suðurevrópskum kauphöllum eftir hádegið. Þannig lækkaði kauphallarvísitalan í Mílanó um 5,3% og vísitalan í kauphöllinni í Madríd um 5,2%. Bandarísk hlutabréf hafa einnig lækkað í verði í dag.
Ástæðan fyrir lækkuninni er áhyggjur fjárfesta af efnahag þessara ríkja og evrusvæðisins í heild. Á Spáni og Ítalíu lækkuðu einkum hlutabréf banka og þannig lækkaði gengi bréfa spænska Santander bankans um 6,7% og ítalska bankans Intesa Sanpaolo um rúmlega 8%.
Gengi evrunnar hefur einnig lækkað í dag á fjármálamörkuðum og var í dag komið niður fyrir 1,25 dali.