Ein versta fjármálakreppa í heila öld

Jean-Claude Trichet.
Jean-Claude Trichet. Reuters

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans, segir í viðtali við þýska tímaritið Spiegel, að fjármálakreppan í Evrópu sé sú dýpsta, sem orðið hafi frá síðari heimsstyrjöld og hugsanlega sú dýpsta frá fyrri heimsstyrjöld.

Trichet segir í viðtalinu, að frá því fjármálakreppan hófst árið 2008 hafi menn upplifað afar dramatíska tíma. Engin vafi leiki á því, að efnahagsmálin séu „í erfiðustu stöðunni frá síðari heimsstyrjöld og jafnvel allt frá þeirri fyrri." 

Þá segir Trichet í viðtalinu, sem birt verður í heild á mánudag, að nýleg skuldakreppa á evrusvæðinu hafi valdið viðbrögðum á fjármálamarkaði sem svipi til ástandsins þegar fjármálakreppan var sem dýpst undir lok ársins 2008.

„Markaðirnir virkuðu ekki lengur. Það var eins og ástandið í kjölfarið á gjaldþroti Lehman Brothers í september 2008," sagði Trichet.   

Leiðtogar Evrópusambandsríkja samþykktu um síðustu helgi að grípa til aðgerða til aðstoðar skuldugum evruríkjum og tryggja allt að 750 milljóna evra lánalínur. Trichet segir að einnig verði að grípa til aðgerða til að ráðast að rótum vandans og herða reglur um peningamál og ríkisfjármál á evrusvæðinu.  Bæta þurfi reglur og herða refsiaðgerðir gegn þeim ríkjum, sem brjóta gegn stöðugleika- og vaxtarsamningnum sem evrusamstarfið byggir á.

Gengi evrunnar hefur lækkað umtalsvert að undanförnu en skuldavandi Grikkja og fleiri evruríkja hefur grafið undan trausti á þennan sameiginlega evrópska gjaldmiðil. Í gær fór gengi evrunnar niður í 1,235 dali og hefur ekki verið lægri frá því í byrjun síðasta árs.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka