Stein Bagger, sem á síðasta ári var dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir stórfelld fjársvik, segist í viðtali við danska ríkisútvarpið vera siðblindur lygari. „Þegar maður hefur logið svo miklu þá verður einskonar umbreyting," er haft eftir Bagger.
Danska sjónvarpið DR1 ætlar á morgun að sýna þátt sem nefnist: Stein Bagger -Er hægt að treysta lygara? Bagger stýrði fyrirtækinu IT Factory, sem talið var í fremstu röð upplýsingatæknifyrirtækja í Danmörku en reyndist byggt á fjársvikum forstjórans.
Á síðasta ári játaði Bagger að hafa svikið 862 milljónir danskra króna, jafnvirði 19 milljarða íslenskra króna, út úr fyrirtækinu.
Bagger segist í sjónvarpsþættinum hafa leiðst út á þessa braut vegna þess að hann þráði viðurkenningu. Hann vildi einkum sanna sig fyrir Asger Jensby, stjórnarformanni IT Factory sem var virtur maður í dönsku viðskiptalífi. Síðan hafi svikið undið upp á sig og loks átti Bagger erfitt með að greina á milli raunveruleikans og þess ímyndaða heims, sem hann hafði búið til.