„Við munum ekki endurreisa vogaðar fyrirtækjasamsteypur sem leggja undir sig heilu markaðina," sagði Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, á morgunverðarfundi Samkeppniseftirlitsins í dag.
Gylfi hélt opnunarræðu á fundinum sem var haldinn undir yfirskriftinni „Yfirtaka banka á atvinnufyrirtækjum."
Ráðherrann sagði að bankarnir gegndu lykilhlutverki í endurreisn atvinnulífsins á Íslandi í kjölfar hruns banka og krónu. Gylfi nefndi að ef bankar treystu sér ekki til að taka umdeildar ákvarðanir og sætu með hendur í skauti, gæti kostnaður vegna þess verið meiri en að taka ranga ákvörðun.
„Umdeildar ákvarðanir munu þó ávallt valda ágjöf á bankana, til dæmis í fjölmiðlum," sagði Gylfi.