Samkeppnishæfni Íslands hefur minnkað ef marka má könnun svissneska viðskiptaháskólans IMD. Könnunin tekur til 58 ríkja, og situr Ísland í 30. sæti listans. Árið 2007 sat Íslands í 7. sæti.
Efsta sæti listans skipar Singapúr, í öðru sæti en Hong Kong og í þriðja sæti eru Bandaríkin. Bandaríkin hafa vermt efsta sæti listans frá upphafi, en IMD framkvæmdi samkeppnishæfnikönnun sína fyrst árið 1989. Munurinn á stigagjöf í þremur efstu sætunum er þó afar lítill, samkvæmt mati IMD.
Hin Norðurlöndin eru ofarlega á listanum, til að mynda situr Svíþjóð í sjötta sæti, Noregur í níunda sæti og Danmörk í 13.sæti. Danmörk lækkar mikið milli ára, en í fyrra sátu Danir í 5.sæti. Rekja má hina miklu lækkun Danmerkur til almennrar svartsýni í viðhorfum atvinnulífsins, að því er kemur fram í samantekt Viðskiptaráðs. Finnland situr í 19.sæti listans.
Styrkleikar Íslands í könnunni koma fyrst og fremst fram í samfélagslegum innviðum, menntastigi og viðskiptaskilyrðum. Fjármál hins opinbera og aðgengi að fjármagni auk stofnanalegs umhverfis draga Íslands hins vegar niður á listanum. Loks kemur fram að atvinnulífið ber afar lítið traust til fjármálastofnana, og ísland er í neðsta sæti listans þegar kemur að viðhorfi stjórnenda í atvinnulífinu til gagnsæis fjármálastofnana.