Heildareignir innlánsstofnana námu 2956 milljörðum króna í lok árs 2009 samanborið við 14.895 milljarða í lok september 2008. Útlán og kröfur nema um 70% af heildareignum bankanna í árslok 2009.
Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Seðlabankinn birti í dag. Bankinn segir að vegna bankahrunsins í október 2008 hafi ekki verið hægt að birta heildstæðar tölur yfir íslenskt bankakerfi frá þeim tíma. Undanfarna mánuði hafi verið unnið að því að vinna upp gögn frá október 2008 til apríl 2010. Nú liggi fyrir bráðabirgðagögn fyrir desember 2008 og desember 2009 í fullri sundurliðun.
Upplýsingarnar byggja á gögnum frá bönkum og sparisjóðum eins og þau liggja fyrir á hverjum tíma. Seðlabankinn segir, að þar sem töluverð óvissa ríki um mat á eignum í kjölfar bankahrunsins kunni gögnin að taka breytingum eftir því sem áreiðanlegra verðmat verði til.