Öll stærstu fyrirtæki Íslands á sviði steinsteypuframleiðslu hafa nú lent í fanginu á kröfuhöfum. Nú síðast var BM Vallá tekið til gjaldþrotaskipta. Áður hafði Íslandsbanki tekið yfir Steypustöðina, fyrir tæpum tveimur árum. Loftorka í Borgarnesi óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í júní á síðasta ári, en hefur nú verið endurreist með aðkomu nýrra fjárfesta. Greint var frá því í gær að NBI og Arion banki hefðu skipt á milli sín rekstrareiningum BM Vallár. Eins og vanalega kemur fram í tilkynningum bankanna þegar þeir taka yfir fyrirtæki er ætlunin að selja rekstrareiningarnar sem fyrst.
BM Vallá hefur nú um skeið verið í greiðslustöðvun. Vísbendingar eru um að félagið hafi stundað að undirbjóða keppinauta sína ríflega á greiðslustöðvunartímabilinu. Morgunblaðið hefur undir höndum gögn sem sýna að BM Vallá bauð 15% lægra verð en næstlægsta boð í nýlegu útboði. Þess ber þó að geta að Morgunblaðið hefur aðeins gögn undir höndum um þetta eina útboð.