Hlutabréfavísitölur hafa lækkað mikið víðsvegar um heiminn í dag. Allar helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu og Asíu hafa lækkað umtalsvert. Til að mynda hefur FTSE vísitalan í Lundúnum lækkað um 2,73% í morgun en hún hefur lækkað um meira en 10% á rúmum mánuði. Í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 2,78% og CAC í París um 3,24%.
Í norrænu kauphöllunum er lækkunin einnig mikil. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur lækkað um 3,21%, í Kaupmannahöfn 2,15%, Stokkhólmi 2,30%, Helsinki 3,22% og í Ósló nemur lækkunin 4,14%.
Nikkei hlutabréfavísitalan lækkaði 3,1% í Tókýó og í Seúl nam lækkunin 2,7%. Í Ástralíu lækkaði vísitalan um rúm 3% og eins lækkuðu hlutabréfavísitölur í Taívan, Hong Kong, Singapúr, Indónesíu, Kína, Indlandi, Malasíu og Taílandi.
Helstu skýringar á lækkunum í dag má rekja til óvissu um stöðu efnahagsmála í Evrópu. Hafa margir fjárfestar litla trú á því að fjárhagur ríkja í Evrópu fari batandi og ekki bætti úr skák fregnir af björgun spænsks sparisjóðs um helgina og ný skýrsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um Spán.
Í Asíu höfðu deilur Kóreuríkjanna einnig áhrif en óttast ýmsir að þær geti endað með stríðrekstri.
Helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu á Wall Street í gærkvöldi og jók það enn á svartsýni meðal fjárfesta.