Samkomulag Seðlabanka Íslands við Evrópska Seðlabankann í Lúxemborg var engum formlegum tengslum bundið samningaviðræðum skilanefndar Landsbankans við skiptastjóra dótturfélags bankans í Lúxemborg.
Þetta kom fram á blaðamannafundi skilanefndar og slitastjórnar bankans eftir kröfuhafafund í dag. Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar, sagði þó að samkomu peningamálayfirvalda landanna tveggja hefði haft góð áhrif á viðræður skilanefndarinnar við skiptastjóra Landsbankans í Lúxemborg.
Seðlabanki Íslands gekk fyrir skömmu frá kaupum á eignasafni íslenskra skuldabréfa af Evrópska Seðlabankanum í Lúxemborg, en Landsbankinn hafði lagt þau að veði í veðlánaviðskiptum í gegnum félagið Avens BV. Um var að ræða ríkistryggð skuldabréf fyrir alls 120 milljarða króna. Seðlabankinn greiðir 437 milljónir evra auk sex milljarða króna fyrir eignasafnið.