Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað mikið í dag og er tunnan af hráolíu komin í rúmlega 74 Bandaríkjadali. Á sama tíma er því spáð að fellibyljatímabilið verði það versta í manna minnum á Atlantshafi og getur það haft áhrif á olíumengunina í Mexíkóflóa. Jafnframt er ekki ólíklegt að það hafi áhrif til hækkunar á heimsmarkaðsverð á olíu.
Á NYMEX-markaðnum í New York hefur tunnan af hráolíu hækkað um 2,61dal í dag og er 74,12 dalir tunnan.
Í Lundúnum hefur Brent Norðursjávarolía hækkað um 2,32 dali og er 74,06 dalir tunnan.
Fellibyljatímabilið hefst þann 1. júní og er þess vænst að fellibyljirnir verði óvenjumargir og kröftugir í ár, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku stofnuninni National Oceanic and Atmospheric Administration.
Gerir NOAA ráð fyrir að þrír til sjö mjög stórir fellibylir muni ganga yfir og átta til fjórtán minni næstu sex mánuði. Auk fjölda storma sem fá nafn en ná ekki stigi fellibyls.
Í venjulegu árferði eru fellibylirnir yfirleitt tveir stórir og sex smærri.