Um helgina keyptu lífeyrissjóðirnir Avensisbréfin sem Seðlabanki Íslands keypti af Seðlabankanum í Lúxemborg á dögunum. Um er að ræða kaup lífeyrissjóðanna á ríkisbréfum fyrir 88 milljarða króna. Lífeyrissjóðirnir greiða í evrum og þar af leiðandi stækkar gjaldeyrisforði SÍ um 17% eftir viðskiptin.
Þessi bréf komust í eigu Seðlabankans í Lúxemborg eftir að Landsbankinn féll, en hann hafði notað þau í endurhverfum verðrbéfaviðskiptum við bankann fyrir fallið. Seðlabanki Íslands borgaði fyrir bréfin í evrum og þar af leiðandi rýrnaði gjaldeyrisstaða bankans við viðskiptin. Fyrir það hefur nú verið bætt með viðskiptunum við lífeyrissjóðina, þar sem að þeir leggja fram evrur fyrir bréfin.
Á fundi sem nú stendur yfir með blaðamönnum sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að þessi viðskipti munu flýta fyrir afnámi gjaldeyrishaftanna.