Atvinnuleysi mældist 10,1% að meðaltali í þeim sextán ríkjum sem mynda Myntbandalag Evrópu í apríl. Er þetta mesta atvinnuleysi á svæðinu frá upphafi en þetta þýðir að um sextán milljónir íbúa evru-svæðisins eru án atvinnu.
Í ríkjum ESB eru 23,3 milljónir án atvinnu, 2,4 milljónum fleiri en í apríl í fyrra. Einungis Þýskaland getur státað að minna atvinnuleysi í ár en í fyrra.
Atvinnuleysið er minnst í Hollandi eða 4,1% en mest í Lettlandi eða 22,5%.
Á Spáni eru 19,7% án atvinnu og ef horft er til ungs fólks þá mælist atvinnuleysið rúm 40%.