Enn margt óunnið í efnahagsmálum

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Verðbólga hefur minnkað og horfur um áframhaldandi hjöðnun hennar eru góðar. Líklega er stutt í að botninum í efnahagsumsvifum sé náð. Margt er þó enn óunnið. Verðbólga er enn langt fyrir ofan markmið þótt horfur á að það náist á næstu misserum hafi batnað, að því er fram kemur í nýju riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika.

„Á síðastliðnum vetri náðist margvíslegur árangur við að ná stöðugleika í íslenskan þjóðarbúskap og endurreisa virkt og öruggt fjármálakerfi. Gengi krónunnar hefur heldur styrkst að undanförnu og hafði áður verið stöðugt frá miðju síðastliðnu ári, og það án inngripa Seðlabankans í gjaldeyrismarkað frá því í nóvember.

Verðbólga hefur minnkað og horfur um áframhaldandi hjöðnun hennar eru góðar. Líklega er stutt í að botninum í efnahagsumsvifum sé náð. Önnur endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sá aðgangur að erlendum lánum frá sjóðnum, Norðurlöndunum og Póllandi sem fékkst við hana hefur eytt óvissu um getu Íslands til að ráða við þungar afborganir af erlendum lánum á árunum 2011 og 2012. Þetta hefur þegar haft þau áhrif að horfur um lánshæfismat hafa batnað.

Nýlegir samningar um kaup á krónueignum sem veðsettar höfðu verið seðlabankanum í Lúxemborg og áframsala þeirra til innlendra lífeyrissjóða styrkja gjaldeyrisforðann enn frekar auk þess að vera mikilvægar forsendur fyrir afnámi gjaldeyrishafta.

Nýju viðskiptabankarnir eru nú að fullu fjármagnaðir og hafa skilað fyrstu ársuppgjörum sínum. Það skapar betri grundvöll til endurskipulagningar á fjárhag viðskiptavina þeirra. Margvísleg vinna hefur verið unnin til að bæta regluverk og eftirlit en fjögur lagafrumvörp um bætt regluverk um starfsemi fjármálastofnana lágu fyrir Alþingi í lok maí," segir í ritinu.

Margt er þó enn óunnið. Næsta skref í afnámi gjaldeyrishafta bíður þriðju endurskoðunar áætlunarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Mikið verk er framundan við að nýta þann árangur sem hingað til hefur náðst við að draga úr erlendri endurfjármögnunaráhættu þjóðarbúsins til að opna á ný aðgang hins opinbera og íslenskra fyrirtækja að erlendum fjármagnsmörkuðum á viðunandi kjörum. Verðbólga er enn langt fyrir ofan markmið þótt horfur á að það náist á næstu misserum hafi batnað. Efnahagsbatinn hefur tafist og forsendur varanlegs hagvaxtar eru um sumt enn ótraustar, samkvæmt inngangsorðum Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra.

„Endurskipulagning á fjárhag heimila og fyrirtækja hefur dregist en hún mun hafa umtalsverð áhrif á hvernig til tekst með endurreisn þjóðarbúskaparins. Fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóða er einnig ólokið, þótt góðar vonir séu um að stutt sé í land. Þá er enn eftir að taka á mörgum þeim ágöllum sem voru á regluverki og eftirliti í aðdraganda hrunsins.

Þetta á einkum við varðandi greiningu á og viðbrögð við kerfisáhættu og stofnanalega umgjörð og skipulag þeirrar starfsemi. Í því felst ekki nein gagnrýni. Hér er um flókið viðfangsefni að ræða sem einnig er í deiglu á alþjóðlegum vettvangi og þótt nú sé tækifærið til umbóta vegna þess að reynsla áfallsins er fersk í vitundinni þarf jafnframt að hafa í huga að „vel skal vanda það sem lengi á að standa“.

Það er mikilvægt að samhæfa þekkingu innan stjórnkerfisins og fjármálageirans og auka upplýsingamiðlun um stöðu og þróun mála. Með vísan til þessa hefur Seðlabankinn komið á samstarfsvettvangi um greiðslumiðlun með þátttöku stjórnvalda, eftirlitsaðila og fjármálafyrirtækja," segir í ritinu.

Ritið Fjármálastöðugleiki í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK