Seðlabanki Íslands hyggst bjóða íslenskum viðskiptabönkum upp á vaxta-gjaldmiðlaskiptasamninga til að draga úr gengisáhættu á efnahagsreikningum þeirra.
Þetta kemur fram í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika, rits sem er gefið út af Seðlabankanum.
Þegar eignir voru færðar yfir í nýju bankana var talsverður hluti þeirra gengistryggðar skuldir fyrirtækja og heimila. Hins vegar urðu skuldirnar á móti þeim eftir í gömlu bönkunum. Afleiðingin er mikið gjaldeyrismisvægi á efnahagsreikningum bankanna sem bakar þeim talsverða áhættu, þó ólíklegt sé að komi til þeirra kasta í skjóli gjaldeyrishafta. Um síðustu áramót var staða bankanna nokkuð ólík hvað gjaldeyrismisvægi varðaði, en NBI var þó í langskástri stöðu hvað það varðaði, enda gaf bankinn út skuldabréf í erlendri mynt á skilanefnd Landsbankans upp á 300 milljarða.