Hætta er á að önnur kreppa muni skella á einhverjum Evrópuríkjum takist Evrópusambandinu ekki að koma böndum á skuldavanda svæðisins, að mati Alþjóðabankans. Slík niðursveifla gæti haft alvarleg áhrif langt út fyrir Evrópu, meðal annars í Asíu og S-Ameríku.
Andrew Burns, einn framkvæmdastjóra bankans, sagði að búist væri við því að hagvöxtur í Evrópu á öðrum ársfjórðungi yrði minni en áður hafði verið gert ráð fyrir og hugsanlega yrði að nýju samdráttur í nokkrum ríkjum.
Ummæli Burns koma þeim líklega ekki á óvart sem fylgst hafa með þróun hlutabréfaverðs, en það hefur lækkað skarpt undanfarna tvo mánuði. Óttast fjárfestar að skuldavandi Evrópuríkja muni leiða til þess að ný lausafjárkreppa myndist.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur í sama streng og segir að útlit í efnahagsmálum heimsins sé nú mun verra en áður og að stjórnvöld hafi mjög takmarkað ráðrúm til að ýta undir hagvöxt.