Best væri fyrir efnahagskerfi heimsins ef Þýskaland ynni Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem er í þann veginn að hefjast í Suður-Afríku. Þetta er mat sérfræðinga hjá hollenska stórbankanum ABN Amro Bank. Bandarískur sigur hefði hins vegar afar slæm áhrif. Þetta kemur fram í skýrslu bankans sem nefnist Soccernomics 2010 og fjallað er um á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende.
Sérfræðingar bankans benda á að sigur á HM geti leitt til aukinnar neyslu hjá vinningsþjóðinni. Þetta þýðir að eigi sigurinn að hafa einhver áhrif á efnahagskerfi heimsins þarf sigurvegarinn að koma úr röðum stórra viðskiptavelda.
En þetta er hins vegar aðeins nauðsynlegt skilyrði en ekki nægjanlegt, því að mati sérfræðinganna verður viðskiptajöfnuður landsins að vera jákvæður. Aðeins tvö viðskiptastórveldi uppfylla síðastnefnda skilyrðið en það eru, að sögn Heins Schotsman eins höfunda skýrslunnar, Japan og Þýskaland.
Efnahagur Japana er stærri en Þýskalands, en útflutningur frá Japan er ekki nægilegur til þess að sigur japanska liðsins hefði afgerandi áhrif á efnahagskerfi heims. Í ljósi þessa kemur Þýskalands eitt til greina að mati skýrsluhöfunda.
Sérfræðingar hjá ABN Amro Bank hafa áður reiknað það út að sigurþjóðin á HM njóti 0,7% aukinnar hagvaxtar vegna sigursins. Það skýrist af því að sigur skapar aukna bjartsýni og eykur neyslu og fjárfestingar í landinu. Það þýðir að innflutningur til sigurlandsins eykst og þess vegna er það kostur fyrir hagkerfi heims ef sigurvegarinn býr fyrir sigurinn við jákvæðan viðskiptajöfnuð.
Samkvæmt sömu skýrslu hefði það beinlínis neikvæð áhrif hagkerfi heimsins ef Bandaríkjamenn ynnu HM. Ástæðan er sú að Bandaríkjamenn lifa nú þegar um efni fram og því væri afar neikvætt ef sigur leiddi til þess að þeir ykju neyslu sína enn frekar.