Ólíkar hagspár

Það verður áfram þröngt í búi hjá mörgum íslenskum heimilum …
Það verður áfram þröngt í búi hjá mörgum íslenskum heimilum á næstunni ef marka má nýlegar hagspár

Í endurskoðaðri spá hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem birt var í gær er gert ráð fyrir minni samdrætti í efnahagslífinu á árinu en deildin gerði ráð fyrir í febrúar síðastliðnum. Þannig gerir ASÍ nú ráð fyrir að landsframleiðsla muni dragast saman um 4,8% í ár, en hafði áður reiknað samdrætti upp á 5,3%. Engu að síður er þetta ívíð meiri samdráttur en aðrar stofnanir hafa verið að gera ráð fyrir í nýlegum spám.

Í spá Seðlabanka Íslands (SÍ) sem birt var í byrjun maímánaðar er gert ráð fyrir 2,6% samdrætti á árinu og spá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem birt var í lok þess mánaðar hljóðaði upp á 2,2% samdrátt.

„Miðað við spá SÍ skýrist þessi munur m.a. af því að ASÍ gerir ráð fyrir minni vexti í einkaneyslu á árinu (0,9% á móti 1,1%) og meiri samdrætti í samneyslu (3,6% á móti 3,0%) og fjármunamyndun (11,9% á móti 10,2%). Auk þess gerir ASÍ ráð fyrir þó nokkrum samdrætti í útflutningi á árinu, eða upp á 3,1%, á meðan SÍ reiknar með 0,4% vexti. Á hinn bóginn reiknar SÍ með að innflutningur muni aukast meira í ár en ASÍ gerir ráð fyrir (2,5% á móti 1%)," segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

 ASÍ gerir ráð fyrir að botni niðursveiflunar verði náð undir lok þessa árs og að hægur viðsnúningur hefjist þá. Hljóðar spá ASÍ upp á 2,3% hagvöxt á næsta ári sem er í takti við spá OECD en nokkuð minni en sá 3,4% hagvöxtur sem SÍ reiknar með. Árin 2012 og 2013 gerir ASÍ svo ráð fyrir 2,8% og 2,6 % hagvexti.

ASÍ reiknar með því að aðlögun á vinnumarkaði eftir áfallið  haustið 2008 komi til með að taka nokkur ár til viðbótar. Telur sambandið því að atvinnuástandið verði áfram slæmt en þó er útlitið nokkuð betra en gert var ráð fyrir í febrúarspá hagdeildarinnar.

Þannig spáir deildin nú að atvinnuleysi í ár verði 9,6% af mannafla og svo 9,2% á því næsta en í febrúar var gert ráð fyrir 10,3% atvinnuleysi bæði árin. Þessi skárri staða skýrist m.a. af því að fleiri hafa dregið sig út af vinnumarki en reiknað var með þar sem að undanförnu hefur fremur dregið úr framboði af vinnuafli en að störfum hafi fjölgað. Er spá ASÍ á svipuðu róli og aðrar nýlegar spár en t.a.m. gerir SÍ ráð fyrir 9,5% atvinnuleysi í ár og 9,2% á því næsta.

Líkt og aðrir aðilar leggur ASÍ áherslu á að vinna þurfi bug á langtímaatvinnuleysi því annars sé hætta á að varanlegt atvinnuleysi verði meiri en ella, en eins og kunnugt er hefur sá hópur sem hefur verið atvinnulaus í meira en hálft ár farið ört stækkandi, samkvæmt Greiningu Íslandsbanka.

Spáir deildin því að atvinnuleysi nái hámarki í upphafi næsta árs og að þá taki hægt að draga úr því. Er þetta í takti við spá SÍ sem reiknaði einnig með að atvinnuleysi haldist mikið út þetta ári og byrji ekki að minnka fyrr en snemma næsta árs. 

Útlit fyrir mikla verðbólgu í ár en skaplegri á því næsta

„Þrátt fyrir styrkingu krónunnar frá því í febrúar hefur ASÍ hækkað nokkuð verðbólguspá sína frá þeim tíma. Er nú reiknað með að verðlag muni verða að meðaltali 5,7% hærra í ár en í fyrra, en áður hafði verið spáð 3,9% hækkun milli ára. Gerir deildin ráð fyrir því að áfram muni hægja á verðhækkunum og undir lok þessa árs verði verðbólga komin niður undir 3,3%.

Er þetta m.a. byggt á þeim forsendum að verðbólguþrýstingur vegna innfluttra vara er lítill þar sem almennt er gert ráð fyrir stöðugu verðlagi næstu misserin í helstu viðskiptalöndum okkar, auk þess sem takmörkuð eftirspurn ætti að halda aftur af verðlagi.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að verðbólgan verði 3,1% og verði svo komin undir verðbólgumarkmið SÍ tvö árin þar á eftir. Spá ASÍ um verbólgu í ár er lítið eitt lægri en spá SÍ sem gerir ráð fyrir 6,2% verðbólgu í ár, en fyrir árin 2011 og 2012 er spárnar nánast samhljóma þar sem SÍ reiknar með 3% verðbólgu á næsta ári og svo 2,4% árið þar á eftir," segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK