Verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili var 1,6% á evru-svæðinu í maí en var 1,5% í apríl, samkvæmt mælingu á samrændi vísitölu neysluverðs. Líkt og oft áður þá er verðbólgan mest á Íslandi, 10% en hún var 11,1% mánuðinn á undan. Engin breyting varð á verðbólgunni í ríkjum Evrópusambandsins í maí og er hún 2% líkt og í apríl.
Fyrir ári síðan mældist engin verðbólga á evrusvæðinu og var 0,8% í ríkjum ESB í maí í fyrra.
Í Lettlandi var 2,4% verðhjöðnun í maí og 1,9% verðhjöðnun í Írlandi. Í Hollandi var verðbólgan 0,4%. Í Grikklandi var verðbólgan 5,3%, Ungverjalandi 4,9% og Rúmeníu 4,4%.
Samkvæmt frétt Eurostat eru helstu skýringar á hækkun vísitölu neysluverðs aukinn kostnaður vegna samgangna og hærra verð á áfengi og tóbaki.