Annarri umræðu um ný lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta lauk á Alþingi í síðustu viku. Umræðan fór að mestu fram aðfaranótt miðvikudags, og tók fljótt af.
Í frumvarpinu er afdráttarlaust kveðið á um að „viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf“, og séu staðsett á Íslandi, eigi aðild að sjóðnum. Útibú þessara aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins njóta sömu tryggingar og útibúin hér heima. Fyrirtækin og útibú þeirra greiða árlegt iðgjald sem nemur 0,3% af tryggðum innstæðum.
Með frumvarpinu, sem flutt er af Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, er leitast við að skýra lagasetningu um innstæðutryggingar, sem og að innleiða nýlega tilskipun Evrópusambandsins, sem líklega mun ná til EES á næstu misserum. Hvað varðar ábyrgð Tryggingarsjóðsins á innstæðum erlendis segir Gylfi að engin breyting verði á því fyrirkomulagi. Um það hafi heldur ekki verið deilt, t.a.m. í Icesave-deilunni, heldur hvort ríkinu bæri að ábyrgjast skuldbindingar Tryggingarsjóðsins.
Í umræðum á Alþingi lýsti Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yfir áhyggjum af því að með innleiðingu tilskipunarinnar væri verið að binda í lög ríkisábyrgð á Tryggingarsjóðnum. Hann gagnrýnir jafnframt að hér sé verið að innleiða tilskipun sem okkur beri ekki að gera, enda ekki enn verið innleidd á EES.
Pétur segir eldri tilskipun Evrópusambandsins kveða á um að tryggingarkerfið sem hér um ræðir sé fjármagnað af innlánsstofnununum sjálfum. Nú sé hins vegar verið að breyta því. Þessari túlkun Péturs er hafnað í áliti meirihluta viðskiptanefndar Alþingis.
Í álitinu kemur fram að rekstrarfyrirkomulagi Tryggingarsjóðsins verði ekki breytt, hann verði áfram sjálfseignarstofnun en ekki í eigu ríkisins. Hann beri þannig sjálfur ábyrgð á skuldbindingum sínum. Sjóðurinn njóti ekki ríkisábyrgðar, „enda ekki tekið fram að svo sé“.
Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að ekki sé sérstaklega gert ráð fyrir því að ríkissjóður ábyrgist lántökur sjóðsins, eða láni honum sjálfur. Því er hins vegar bætt við „að lántaka sjóðsins verði erfiðleikum bundin án bakábyrgðar ríkissjóðs eða annarrar aðkomu hans að lántökunni.“