Hefðu lækkað vexti meira

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Að sögn Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra getur dómur Hæstaréttar haft áhrif á efnahagsþróun næstu mánuði til hins verra. Hann segir að peningastefnunefndin hefði væntanlega lækkað vexti meira en nú var gert ef ekki væri óvissa um áhrif dóms Hæstaréttar varðandi gengistryggðu bílalánin.

Óvissan verst og mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bankakerfið

Hann segir bannið við gengistryggingunni ekki vera vandamálið heldur óvissan um hvað taki við, mikilvægt sé að allir átti sig á því að ef niðurstaðan verði sú að lánin verði greidd til baka á samningsvöxtum, sem við skulum vona að verði ekki, sagði Már, en ekki á vöxtum Seðlabankans eða Reiborvöxtum, þá muni það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bankakerfið.

Það muni ekki vera í stakk búið til að byggja áfram upp, hagvöxtur hverfi og hætt við að Íslendingar sætu uppi með japanskt bankakerfi líkt og það var  eftir bankakreppuna þar í landi. Hann segir mikilvægara að vera með öflugt hagkerfi heldur en lága vexti. Hagkerfi Íslands komist ekki í gang nema landið fái lánsfé, hvort heldur sem um innlent eða erlent lánsfé sé að ræða.

Þar til þessari óvissu verður létt er ansi hætt við því að sú sigling sem við höfum verið á að undanförnu við að koma okkur úr eftirleik fjármálakreppunnar verði töluvert hægari en nú er, sagði Már við fréttamenn á fundi í Seðlabankanum í dag.

Hvetur til samstöðu

Hann hvetur þá sem nú lofa gulli og grænum skógum um að enginn þurfi að borga um að sameinast um lausn á þessu vandamáli. Ef það verður ekki þá fer illa fyrir okkur, sagði Már. Hann tók einnig fram að það sé alltaf einhver sem þurfi að borga - þetta sé ekki gjöf.

Líkt og fram kom í gær hefur ríkissjóður ákveðið að kaupa skuldabréf með gjalddaga 2011 og 2012 til baka að hluta.

Undir nafnverði

Már segir ástæðu þess að ákveðið var að kaupa þessa skuldabréfaflokka upp að hluta er að skuldabréfin eru á lægra verði nú en þau verða þegar þau koma á gjalddaga. Eins sé Seðlabankinn með ríflegan gjaldeyrisforða eftir samninginn í Lúxemborg og að dregið verður á lán frá norrænu löndunum og Póllandi. Beiðnin hefur verið staðfest af ríkjunum og á næstu dögum og vikum mun bankinn fá 639 milljónir evra í hús vegna þessa ádráttar. 

Hann segir að útboðið á skuldabréfunum hafi gengið vel og þau hafi verið keypt á verði sem var um 3% undir nafnverði, en nafnverð þeirra er um 190 milljónir evra, og rúmlega það af bréfunum sem eru á gjalddaga 2012. 

Ljóst hafi verið að draga hafi þurft á lánin frá hinum Norðurlöndunum og Póllandi þar sem gjaldeyrisforðinn var orðinn of lítill. Þetta hafi þurft að gera fyrir þriðju endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. 

Hann sagði að það þurfi jafnvel að draga enn frekar á lánalínur áður en gjaldeyrishöftum verður aflétt. Talsvert sé í að þeim verði aflétt að fullu en sá tímapunktur kemur væntanlega ekki fyrr en á seinni hluta ársins 2011, sagði Már á fundi með fréttamönnum.

Skuldir ríkissjóðs minnka um 4% af landsframleiðslu

Þessi bréf verða tekin út úr skuldatölum ríkissjóðs og jafnframt verða tekin út bréf sem bankinn hefur verið að kaupa út af markaði á undanförnum mánuðum. Samtals er þetta skuldalækkun um 4% af landsframleiðslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK