Aukin óvissa grefur undan trausti

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri mbl.is/Ómar Óskarsson

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir svigrúm peningastefnunefndar takmarkast enn af óvissu um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum í framtíðinni. Aukin óvissa af völdum nýlegra dóma Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána gæti grafið undan trausti og takmarkað svigrúm frekar.


Styrkingin 6% gagnvart evru

Viðskiptavegið meðalgengi krónunnar hefur styrkst um 5% frá síðasta fundi nefndarinnar og um 6% gagnvart evru, eða aðeins meira en spáð var í Peningamálum í maí. Seðlabankinn hefur ekki átt nein viðskipti á gjaldeyrismarkaði. Að auki hefur vaxtaálag á skuldbindingar ríkissjóðs lækkað frá síðasta peningastefnufundi. Gjaldeyrishöftin, þróun viðskiptajafnaðar og vaxtamunur við helstu viðskiptalönd Íslands halda áfram að styðja við gengi krónunnar.

Verðbólga minnkaði í maí og mældist 7,5%, eða 6,1% ef áhrif hærri neysluskatta eru frátalin. Þessi þróun er í samræmi við spána sem birt var í maí. Áfram er talið að verðbólga án áhrifa neysluskatta verði við markmið bankans snemma á næsta ári. Ný gögn, þ.m.t. þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta fjórðung þessa árs, breyta ekki í grundvallaratriðum því mati á efnahagshorfum sem birtist í maíspánni.

„Ástæður þess að áfram er dregið úr peningalegu aðhaldi eru betri grunnþættir og traustara aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum í gegnum tvíhliða og marghliða samninga, sem hafa stuðlað að styrkingu krónunnar og lækkun áhættuálags á íslenskar fjárskuldbindingar. Þessi þróun ætti jafnframt að auðvelda Seðlabankanum að hefja afnám hafta á fjármagnshreyfingar. Fyrstu skrefin væri hægt að taka tiltölulega fljótlega eftir að þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lokið.

Í framtíðinni mun Seðlabankinn þurfa að auka eigin gjaldeyrisforða í stað forða sem aflað hefur verið með lántöku. Gengishækkun krónu og lækkun áhættuálags á íslenskar fjárskuldbindingar gætu gefið svigrúm til hóflegra gjaldeyriskaupa. Tímasetning og magn slíkra kaupa verða ákveðin með tilliti til þess að áhrif á krónuna verði sem minnst. Engar ákvarðanir um slík kaup verða þó teknar fyrir fund peningastefnunefndar í ágúst.

Svigrúm peningastefnunefndar takmarkast enn af óvissu um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum í framtíðinni og áformum um afnám hafta á fjármagnshreyfingar. Aukin óvissa af völdum nýlegra dóma Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána gæti grafið undan trausti og takmarkað svigrúm peningastefnunnar frekar, verði ekki brugðist við vandanum í tíma.

Eins og áður telur nefndin forsendur áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds vera til staðar, haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og hjaðni verðbólga eins og spáð er. Nefndin er reiðubúin til að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK