Gjaldeyriskaup í undirbúningi

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri mbl.is/Golli

Seðlabankinn mun líklega hefja regluleg kaup á gjaldeyri á markaði með haustinu í því skyni að byggja upp gjaldeyrisforða bankans og breyta samsetningu hans. Má búast við að áætlun þar að lútandi verði kynnt á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans, þann 18. ágúst næstkomandi, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Leitast verður við að haga kaupunum með þeim hætti að þau grafi ekki undan gengi krónu á nýjan leik eftir styrkingu hennar það sem af er ári. Þetta má ráða af yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans sem birt var síðastliðinn miðvikudag og orðum Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra á kynningarfundi þann sama dag.

Stærstur hluti gjaldeyrisforða Seðlabankans er nú fenginn að láni. Er bankanum í mun að breyta samsetningu hans á þann veg að hrein gjaldeyriseign verði stærri hluti forðans, enda skapar gjaldeyrisforði sem þannig er samansettur meiri trúverðugleika en lánsforði.

„Af máli seðlabankastjóra mátti ráða að hugmyndin sé að gjaldeyriskaupin verði með reglubundnum hætti s.s. einu sinni í viku, en að magnið sem keypt verður hverju sinni sveiflist á tilteknu bili eftir aðstæðum á gjaldeyrismarkaði. Með þessu fæst tiltekinn fyrirsjáanleiki í kaupin án þess að fórnað sé sveigjanleika til að bregðast við breytingum á gjaldeyrisflæði til og frá landinu frá einum tíma til annars. Í ljósi þess hversu grunnur innlendur millibankamarkaður með gjaldeyri hefur verið undanfarið er hins vegar líklegt að gjaldeyriskaupin verði fremur smá í sniðum til að byrja með, svo áhrifin á gengi krónu verði ekki þeim mun meiri," segir í Morgunkorni.

Þótt Seðlabankinn hafi frá innleiðingu gjaldeyrishafta fram til nóvember síðastliðins einbeitt sér að sölu gjaldeyris í því skyni að vinna gegn veikingu krónu er það engin nýlunda að bankinn kaupi gjaldeyri á markaði. Frá haustdögum ársins 2002 fram til fyrsta fjórðungs ársins 2008 keypti bankinn þannig reglulega gjaldeyri, og námu kaupin alls ríflega 2 milljarða Bandaríkjadala á tímabilinu.

„Raunar má gagnrýna bankann fyrir að hafa ekki verið stórtækari í þessum gjaldeyriskaupum á tímum þar sem krónan var lengst af sterkari en góðu hófi gegndi og erlendar skuldbindingar hlóðust upp hjá innlendum aðilum. Stærri gjaldeyrisforði við bankahrunið hefði væntanlega dregið úr ótta markaðsaðila við algera gjaldeyriskreppu og auðveldað Seðlabankanum það ætlunarverk sitt að koma styrkari stoðum undir krónuna á nýjan leik.

Með nýjum mönnum koma hins vegar nýir tímar, og núverandi Seðlabankastjóri hefur ítrekað lýst hugmyndum sínum um að stýra gjaldeyrisforðanum með mun virkari hætti en áður tíðkaðist þar á bæ í því skyni að styðja við peningastefnuna. Má til að mynda benda á Ástralíu sem dæmi um land þar sem slíkri stefnu hefur verið framfylgt með góðum árangri," segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK