Fréttaskýring: Afsláttur af eignum dugar ekki til

Reuters

Gert var ráð fyrir því að gengistryggð lán væru lögmæt við yfirfærslu eigna frá gömlu bönkunum í þá nýju. Til marks um það eru ummæli Gylfa Magnússonar í september á síðasta ári, en þá sagði hann að „það hafi verið gengið út frá því til þessa að þessi erlendu lán hafi verið lögleg“.

Gunnar Tómasson, hagfræðingur, benti einnig á í bréfi sínu sem hann sendi til allra til þingmanna 12. september 2009 að í uppgjörssamningum milli skilanefnda og kröfuhafa gömlu bankanna væri gengið út frá því að yfirfærsla gengisáhættu [innsk. frá bönkum yfir á lántakendur] hafi verið lögleg. Í skriflegu svari Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, sagði jafnframt að ráðuneytið hefði ekki óskað eftir skriflegu áliti um lögmæti gengistryggðra lána.

Gæði útlána réðu ekki för

Þegar gömlu bönkunum var skipt upp var meginreglan sú að innlendar eignir voru færðar í nýju bankana á mismunandi miklum afslætti eftir eðli þeirra, og hinar erlendu voru skildar eftir hjá skilanefndunum. Jón G. Jónsson sagði í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2009, að stærð nýju bankanna gæti leitt til mikils útlánataps. Stór lánasöfn þeirra gætu leitt til mikilla vanskila. Gjaldeyrismisvægi á eignahlið gæti einnig að sama skapi, að mati Jóns, haft slæmar afleiðingar til lengri tíma. Jón lagði til að nýju bankarnir keyptu aðeins bestu eignir gömlu bankanna, sem næmi innistæðum, sem voru á þeim tíma 1.300 milljarðar króna. Með öðrum orðum hefði verið skynsamlegra að skipta bönkunum upp í góða og slæma banka, í stað nýrra og gamalla þar sem gæði lána réðu ekki för, heldur hvort um væri að ræða skuldbindingu erlends eða innlends aðila.

Gylfi Magnússon sagði í samtali við Morgunblaðið daginn eftir að grein Jóns birtist að mikil vinna hefði verið lögð í meta eignir bankanna. „[Þ]að mat virðist vera skynsamlegt þannig að ef rétt er að málum staðið, ættu bankarnir að vera með sæmilega heilbrigðan efnahagsreikning og þess vegna gæti ríkið lagt þeim til fé, án þess að stór hluti þess tapist,“ sagði Gylfi í apríl 2009.

Dugar afslátturinn til?

Gengistryggð lán voru færð yfir í nýju bankana á talsverðum afslætti, eins og margoft hefur komið fram. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði engu að síður á fréttamannafundi í síðustu viku að dómur Hæstaréttar kynni að hafa talsverð áhrif á eiginfjárstöðu íslenskra fjármálastofnana. Einnig verður ekki litið framhjá ummælum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, í kjölfar þess að dómur Hæstaréttar féll. Bloomberg hafði eftir Gunnari að niðurstaða Hæstaréttar gæti verið versta niðurstaða sem hugsast gæti fyrir einhver fjármálafyrirtæki. Líklegt væri að einhver þeirra yrðu í kjölfarið með lægra eiginfjárhlutfall en reglur gerðu ráð fyrir.

Myndi ríða kerfinu að fullu

Már sagði síðan á kynningarfundi vegna stýrivaxtaákvörðunar Seðlabankans í vikunni að niðurstaða Hæstaréttar væri áhyggjuefni fyrir fjármálakerfið, og að núverandi vaxtakjör erlendu lánanna myndu ríða bankakerfinu að fullu. Núverandi samningsvextir hefðu ekki verið í „samræmi við efnahagslegan veruleika“ og þar af leiðandi væri æskilegt að endurreikna hærri vexti á lánin. Þessi ummæli verða vart túlkuð á annan hátt en að einhvers staðar hafi mistök verið gerð við meðhöndlun gengistryggðu lánanna við uppskiptingu bankanna, eða verðlagning á eignum sem ákveðið var að færa á milli hafi verið röng. Í ársreikningum nýju bankanna sést glögglega að raunvirði gengistryggðra lána er metið mun lægra en nafnvirði þeirra nemur. Hins vegar tekur það mat mið af væntanlegum vanskilum vegna greiðslufalls lántakenda, fremur en þeim möguleika að tenging höfuðstóls við gengi erlendra gjaldmiðla kynni að verða dæmd ólögmæt af Hæstarétti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK