Ummæli Per Sanderud, forseta Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um stöðu Íslendinga í Icesave-deilunni eru þess eðlis að efast má um hæfi ESA til að fjalla frekar um málið, að því er segir í frétt á Evrópuvaktinni.
ESA sendi 26. maí áminningarbréf til Íslands vegna Icesave. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að Ísland sé skuldbundið til að tryggja greiðslu á lágmarkstryggingu í samræmi við tilskipun um innstæðutryggingar til breskra og hollenskra sparifjáreigenda. Íslenskum yfirvöldum var veittur tveggja mánaða frestur til að svara áminningarbréfinu eða til 26. júlí.
„Þegar Per Sanderud ræddi þetta mál hér á landi á fundum og í fjölmiðlum í síðustu viku, kom hvarvetna fram, að hann teldi málstað Íslands á þann veg, að ekkert fengi breytt niðurstöðu ESA. Málið er á umsagnarstigi gagnvart ESA og er beðið svara íslenskra stjórnvalda. Á það er bent af viðmælendum Evrópuvaktarinnar, að með orðum sínum hafi Sanderud rýrt svo stöðu ESA sem óhlutdrægs eftirlitsaðila í málinu, að ekki sé unnt að halda því áfram á þeim vettvangi. Beri íslenskum stjórnvöldum að krefjast frávísunar á málinu, á meðan Sanderud stjórni ESA,“ segir í frétt Evrópuvaktarinnar.