Bandarískar hlutabréfavísitölur lækkuðu mjög mikið í dag á sama tíma og væntingar neytenda virðast ekki miklar þar í landi og nýjar tölur um efnahags Kína bendi til að efnahagsbatinn sé ekki eins mikill og vonir voru um. Hlutabréfavísitölur lækkuðu einnig mjög mikið í Evrópu.
Dow Jones vísitalan lækkaði um 2,64% eða 268,06 stig og lokaði í 9.870,46 stigum. Um tíma var lækkunin enn meiri eða yfir 3%. Nasdaq lækkaði um 3,85% og S&P 500 um 3,10%.
Í Lundúnum lækkaði FTSE vísitalan um 3,10%, DAX í Frankfurt um 3,33% og CAC í París um 4,01%. Ein helsta skýringin á lækkun í Evrópu er að komið er að skuldadögum hjá fjölmörgum bönkum sem fengu lán hjá seðlabönkum á lágum vöxtum til þess að hleypa lífi í lánsfjármarkaðinn.
Bandaríkjaforseti, Barack Obama, með formann bankastjórnar Seðlabanka Bandaríkjanna, Ben Bernanke, sér við hlið, reyndi að sannfæra markaðinn um að hagkerfið væri á réttri leið þrátt fyrir slæmar fréttir af mörkuðum í dag. Hann viðurkenndi þó að miklar efasemdir væru um batann og hversu hraður hann yrði.