Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,33% í júní frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,46% frá maí.
Er þetta í takt við spá IFS Greiningar en þeirra spá hljóðaði upp 0,3% lækkun vísitölu neysluverðs og að verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili lækki í 5,7% úr 7,5%. Hins vegar spáði Greining Íslandsbanka því að engin breyting yrði á vísitölunni í júní og að verðbólgan myndi lækka í 6%.
Verð á bensíni og díselolíu lækkaði um 5,9% (vísitöluáhrif -0,34%) og mat og drykkjarvöru lækkaði um 1,5% (-0,23%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,7% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,5%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,3% verðbólgu á ári (0,3% fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í júní 2010, sem er 364,1 stig, gildir til verðtryggingar í ágúst 2010. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 7.189 stig fyrir ágúst 2010.