Ótti er nú vaxandi innan evrópska fjármálakerfisins um að stöðugleiki þess sé í hættu og að bankar séu það illa staddir að hætta sé á því að einhverjir þeirra fari í þrot, sem hefði ófyrirsjáanlega keðjuverkun.
Spænskir bankar eru taldir standa hvað tæpast, en samkvæmt frétt Financial Times berjast þeir nú um á hæl og hnakka við að reyna að sannfæra Evrópubankann um að auka fyrirgreiðslu til þeirra, að því er fram kemur í ítarlegri fréttaskýringu um málið í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.
Sérstök fyrirgreiðslu- og fjármögnunaráætlun evrópska seðlabankans upp á 442 milljarða evra rennur út í dag og hyggst bankinn ekki framlengja áætlunina, sem felur í sér lánveitingar til eins árs. Í staðinn hyggst bankinn lána bönkum til þriggja mánaða í senn. Hefur Financial Times eftir einum háttsettum spænskum bankamanni að sú ákvörðun sé „út í hött“. „Öllum seðlabönkum ber að tryggja lausafé. En það er ekki stefna evrópska seðlabankans. Það er út í hött,“ segir hann. Annar þarlendur bankamaður segir: „Stefna Evrópubankans er að lána ekki til lengri tíma en þriggja mánaða. En hann verður að laga sig [að aðstæðum].“