Samkvæmt veðbandayfirliti fyrir fasteignina sem hýsir 101 Hótel hefur hún verið kyrrsett að beiðni skilanefndar Glitnis. Samkvæmt upplýsingum frá hótelstjóra 101 hefur kyrrsetning fasteignarinnar ekki áhrif á rekstur hótelsins þar sem reksturinn og fasteignin eru aðskildir þættir.
Kyrrsetningin er sú þriðja í röðinni á eftir 350 milljón króna veðskuldabréfi sem Arion Banki á á hótelið. Jafnframt á NBI tryggingabréf upp á sjö milljónir dollara, eða sem nemur tæpum 900 milljónum króna með veði í hótelinu. Kyrrsetningarbeiðni skilanefndar Glitnis er vegna tæplega 200 milljón króna kröfu á eigendur hótelsins, þau Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörgu Pálmadóttur.
101 Hótel var áður í eigu félagsins IP Studium, en í febrúar var það fært yfir á Jón Ásgeir og Ingibjörgu persónulega. Hvort um sig á 50% hlut í hótelinu.
Alls hvíla því veð fyrir samtals 1,5 milljarð króna á húsinu, en samkvæmt fasteignamati er verðmæti hússins nokkuð undir því.