Ein króna af hverjum fimm sem ríkissjóður aflar sér fer í vaxtagjöld, að því er fram kemur í yfirliti fjármálaráðuneytisins yfir greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu fimm mánuði ársins.
Heildarvaxtagreiðslur á tímabilinu jukust um 44% frá fyrra ári og námu tæpum 34 milljörðum króna. Skuldir ríkissjóðs nema í kringum 100% af vergri landsframleiðslu.
Tekjur og gjöld ríkissjóðs á fyrstu fimm mánuðum ársins drógust jafn mikið saman, eða um 5,4%, eftir að tekið hefur verið tillit til verðbólgu. Halli ríkissjóðs nam 37,6 milljörðum króna, en hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 42 milljarða. Þegar við er bætt afborgunum lána upp á 72 milljarða króna fæst neikvæður lánsfjárjöfnuður upp á 114 milljarða króna.
Upp í þetta tók ríkissjóður 90 milljarða króna að láni, þannig að handbært fé sjóðsins lækkaði um rúma 24 milljarða króna á tímabilinu, að því er fram kemur í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.