Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, er nú búsettur í Lúxemborg og stundar þar verðbréfaviðskipti á eigin vegum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu, sem hann hefur lagt fyrir dómstól í New York vegna skaðabótamáls sem slitastjórn Glitnis hefur höfðað á hendur Hannesi og fleirum sem tengdust Glitni.
Hannes krefst þess, eins og aðrir málsaðilar, að málinu verði vísað frá dómi í New York.
Hannes segist í yfirlýsingunni ekki eiga neinar fasteignir í New York ríki og hafi ekki unnið í Bandaríkjunum frá árinu 1996 þegar hann starfaði fyrir fyrirtækið McKinsey og Co í Boston. Hann segist vera íslenskur ríkisborgari en búi um þessar mundir í Lúxemborg og stýri viðskiptum sínum þaðan.