Dómari í Lundúnum tók undir með slitastjórn Glitnis um að ólíklegt væri að Jón Ásgeir Jóhannesson hefði veitt upplýsingar um allar eignir sínar. Féllst dómarinn því ekki á kröfu Jóns Ásgeirs um að kyrrsetningu allra eigna hans verði hnekkt, að því er kom fram í fréttum Útvarpsins.
Að sögn Útvarpsins gaf Jón Ásgeir upplýsingar um eignir, sem nema 1,2 milljónum punda, jafnvirði nærri 230 milljónum króna. Slitastjórn Glitnis fékk því framgegnt, að allar eignir Jóns Ásgeirs, hvar sem er í heiminum, yrðu kyrrsettar vegna 2 milljarða dala skaðabótakröfu, sem slitastjórnin hefur lagt fram á hendur Jóni Ásgeiri og fleiri einstaklingum fyrir dómstóli í New York.