Breyting hefur orðið á eignarhaldi Europris á Íslandi undanfarið. Norðmennirnir hafa komið með fjármagn inn í félagið og Petter Christian Wilskow, Stein-Erik Björnsen og Kjell Olav Krathe tekið sæti í stjórn þess. Europris á Íslandi þiggur einkaumboð (franchise) sitt frá Europris í Noregi, sem jafnframt er stærsti birgir þess. Höfuðstöðvar Europris eru jafnframt í Noregi.
Félagið rekur sex smásöluverslanir á Íslandi, fjórar á höfuðborgarsvæðinu, eina á Akureyri og eina á Selfossi.
Matthías Sigurðsson, framkvæmdastjóri Europris á Íslandi, segir að ekki sé fyrirhugað að gera breytingar á verslanafjölda. Daglegur rekstur félagsins verði með nákvæmlega sama sniði og verið hefur.
Matthías segir engar breytingar framundan á rekstrinum. Sömu stjórnendur komi til með að stýra fyrirtækinu áfram, bæði í yfirstjórn þess sem og verslunarstjórn.