Pálmi segist engin tengsl hafa við Bandaríkin

Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson.

Pálmi Haraldsson segir í eiðsvarinni yfirlýsingu, sem lögð var fyrir dómstól á Manhattan í gærkvöldi, að hann hafi engin tengsl við Bandaríkin og ekki komið þangað oft. Pálmi krefst þess, eins og aðrir þeir sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt fyrir réttinn, að málinu verði vísað frá.

Pálmi segist búa í Lundúnum og sinna þar viðskiptum en áður hafi hann búið á Íslandi. Hann segist aldrei hafa starfað fyrir Glitni eða verið þar í stjórn og ekki tekið neinn þátt í skuldabréfaútboði bankans í New York. Slitastjórnin sagðist hafa höfðað skaðabótamálið gegn Pálma, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleirum í New York vegna 1 milljarðs dala skuldabréfaútboðs Glitnis í september 2007 þar sem fjárfestar hefðu fengið rangar upplýsingar um fjárhag bankans. 

Pálmi segist hafa verið stjórnarmaður í FL Group á árunum 2007 og 2008. Hann hafi hins vegar aldrei ferðast til New York í erindum fyrirtækisins. Þá hafi hann verið í stjórn og starfað sem forstjóri Fons hf. en aldrei verið stjórnarformaður þess fyrirtækis, eins og látið sé liggja að í stefnu Glitnis, og aldrei verið í stjórn félagsins FS38. Þá hafi hann aldrei farið til New York í erinda þessara félaga.

FL Group, Fons og FS38 hafi átt í tilteknum beinum og óbeinum viðskiptum við Glitni en um þessi viðskipti hafi verið samið, þau skjalfest og þeim lokið á Íslandi. „Ég gat ekki gert ráð fyrir, að neitt það, sem ég hef aðhafst í tengslum við FL Group, Fons eða FS38 myndi hafa afleiðingar í New York," segir Pálmi.

Hann bendir á að Glitnir hafi einnig lagt fram skaðabótamál á hendur honum og fleirum í Reykjavík og krefjist 6 milljarða króna í bætur. Þær ásakanir, sem komi fram í því máli snúis að miklu leyti um sömu viðskiptin og fjallað er um í stefnunni í New York. 

Pálmi segir, að það muni kosta sig mikla fjármuni og fyrirhöfn að taka til varna í New York. Flest skjöl, sem tengist málinu, séu á íslensku og því þyrfti að þýða þau. Þá séu flest vitni, sem hann myndi þurfa að kalla fyrir réttinn, á Íslandi. Þá segist Pálmi hafa þurft að ráða lögmenn á Íslandi vegna málarekstursins þar og myndi þurfa að ráða lögmenn í New York ef málinu þar yrði ekki vísað frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK