Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði til í dag, að upphæð innistæðutryggingar sparifjáreigenda verði tvöfölduð og hækki í 100 þúsund evrur, jafnvirði 15,8 miljóna króna, fyrir hvern reikning. Þessi upphæð greiðist út 7 dögum eftir að banki verður ógjaldfær.
Hámarksbætur samkvæmt reglum Evrópusambandsins voru 20.886 evrur og við þá upphæð hefur verið miðað í deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana. Ákveðið var hins vegar að hækka þessa fjárhæð í 50 þúsund evrur í kjölfar fjármálakreppunnar og gildir sú upphæð frá og með júní sl. Verði tryggingin hækkuð í 100 þúsund evrur mun hún ná yfir 95% af öllum innistæðum á bankareikningum.
Þá leggur framkvæmdastjórnin til að bætur til fjárfesta hækki í allt að 50 þúsund evrur úr 20 þúsund evrur ef eignir þeirra rýrna vegna fjársvika. Er þeirri tillögu ætlað að vernda fjárfesta fyrir fjársvikum á borð við þau, sem bandaríski kaupsýslumaðurinn Bernard Madoff stundaði þegar hann sveit þúsundir milljarða dala út úr viðskiptavinum sínum.
Michel Barnier, sem fer með málefni innri markaðarins í framkvæmdastjórn ESB, segir að þessum tillögum sé ætlað að auka gegnsæi og ábyrgð í evrópska fjármálakerfisins.
„Evrópskir neytendur eiga betra skilið," sagði hann við blaðamenn. „Þeir eiga að geta treyst því, að sparnaður þeirra, fjárfestingar og tryggingar njóti verndar hvar sem þær eru í Evrópu.
Tillögur Barniers taka ekki gildi fyrr en Evrópuþingið og aðildarríki Evrópusambandsins hafa lagt blessun sína yfir þær. Í tillögunum felst m.a., að bæturnar verða greiddar út án tillits til þess hvar bankareikningurinn er. Það þýðir, að íbúi í Portúgal, sem á fé á sænskum bankareikningi, fengi bætur úr portúgalska innlánstryggingasjóðnum, sem síðan myndi innheimta bæturnar hjá sænska tryggingasjóðnum.