Askar óska eftir slitameðferð - bráðabirgðastjórn skipuð í Avant

Stjórn Aska Capital samþykkti í dag að óska eftir slitameðferð á félaginu hjá dómstólum.

Þá hefur stjórn bílalánafyrirtækisins Avant, dótturfélags Aska Capital, óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið skipi bráðabirgðastjórn félagsins. Segir í tilkynningu að dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána hafi haft mikil áhrif á  efnahag fyrirtækjanna.

Þann 31. maí voru eignir Avant metnar á um 23 milljarða króna. Eftir dóminn eru eignirnar metnar á 9-13 milljarða króna eftir því hvaða vaxtaviðmiðun er notuð. 

Í tilkynningu segir, að vegna óvissu um vaxtaútreikning gengislána hafi kröfuhafar ekki náð niðurstöðu um fjárhagslega endurskipulagningu Avant en gert sé ráð fyrir að niðurstaða fáist þegar þeirri óvissu léttir. Þar sem eiginfjárstaða félagsins sé neikvæð um að lágmarki 10 milljarða króna og endurskipulagning óvissu háð telji stjórn félagsins sig ekki hafa umboð til áframhaldandi setu og  því óskað eftir því að bráðabirgðastjórn verði skipuð.

Þá segir, að staða Aska Capital sé mjög háð afkomu Avant. 31. maí hafi eignir Aska verið metnar á 10 milljarða króna og skuldir taldar 6,5 milljarðar. Askar eigi kröfu á Avant sem var metin á 7 milljarða króna í maílok. Þessi krafa gjaldfærist að fullu eftir dóm Hæstaréttar og því verði eiginfjárstaða félagsins neikvæð um 3,5 milljarða króna. Þar sem ekki liggi fyrir samkomulag við kröfuhafa um endurskipulagningu félagsins hafi stjórn Aska samþykkt að óska eftir slitameðferð.

Fjárfestingarbankinn Askar Capital var hluti af Milestone-veldi Karls og Steingríms Wernerssona. Bankinn var stofnaður árið 2007 og var forstjóri þá Tryggvi Þór Herbertsson.

Við stofnunina var tilkynnt að starfsmenn bankans væru um 80 og starfsstöðvar væru á Íslandi í Lúxemborg og Rúmeníu og að ætlunin væri að opna í þremur löndum til viðbótar. Askar Capital voru mikið í svokölluðum fasteignaverkefnum og hafði fyrirtækið  umsvif víða. Verkefnin gengu þó misjafnlega, m.a. tapaði félagið 1,4 milljörðum á húsi með þremur lúxusíbúðum í Hong Kong eða 1,2 milljónum á hvern fermetra.

Fram kom í síðustu viku, að viðræður væru hafnar um kaup Sögu Capital á hluta starfsemi Aska Capital.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka