Dregur úr kortaveltu á ný

ÞÖK

Svo virðist sem einkaneysla hafi dregist lítillega saman á öðrum fjórðungi ársins frá sama tíma í fyrra ef marka má tölur um kortaveltu, sem Seðlabankinn hefur birt.  Kreditkortavelta nam 26,4 milljörðum króna í júní, sem jafngildir 4,8% aukningu í krónum talið frá sama mánuði í fyrra, en að raungildi jókst kreditkortavelta aðeins um 0,8%.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbankan, að erlend kortavelta hafi aukist um ríflega fjórðung á milli ára, þegar leiðrétt hafi verið fyrir gengisbreytingum. Rími það við nýlegar tölur um brottfarir um Leifsstöð, sem sýni, að Íslendingar hafi verið mun viljugri til ferðalaga til útlanda í júní síðastliðnum en raunin var á sama tíma í fyrra.

Greining Íslandsbanka segir, að þótt kreditkortavelta hafi heldur aukist að raungildi á milli ára í júní gegni öðru máli um debetkortaveltu einstaklinga. Debetkortavelta í innlendum verslunum hafi þannig dregist saman að raungildi um nærri 8% í júní frá sama mánuði í fyrra, og í heild hafi innlend debetkortavelta einstaklinga dregist saman um nærri 12% að raungildi á tímabilinu.

Sé tekin er saman kreditkortavelta og debetkortavelta í innlendum verslunum nemi samdrátturinn í heild ríflega 3% að raungildi á þessu tímabili.

Íslandsbanki segir, að svo virðist sem heimilin hafi tekið að herða beltið að nýju á vordögum. Það ætti vart að koma á óvart í ljósi þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi skroppið saman það sem af er ári frá sama tímabili í fyrra, bæði vegna þess að verðlag hafi hækkað umfram laun og vegna hækkunar á tekjuskatti einstaklinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK