Verðbólgan hér á landi var 7,6% í júní samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem hagstofa Evrópusambandsins birti í morgun. Lækkar því verðbólgan töluvert milli mánaða en hún var 10% hér á landi í maí á kvarða samræmdrar vísitölu og 16,7% í júní í fyrra.
Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka í dag, að meginástæða lækkunarinnar sé að áhrif gengislækkunar krónunnar á verðbólgu sem varð í aðdraganda og samhliða hruni bankakerfisins hér á landi á árinu 2008 séu nú nær horfin.
Íslandsbanki segir, að þótt verðbólgan hafi hjaðnað skarpt hér á landi undanfarið mælist hún engu að síður enn mest hér á landi af ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Það land sem komist næst Íslandi sé Grikkland en þar var verðbólgan í júní 5,2%; og Ungverjaland með 5% verðbólgu.