Jón Ásgeir Jóhannesson segist í viðtali við Viðskiptablaðið ætla að höfða mál gegn Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis, vegna eiðsvarinna lyga hennar fyrir dómstólum.
Vísar hann til upplýsinga, sem fram komi í eiðsvörnum vitnisburði Steinunnar Guðbjartsdóttur fyrir dómi, meðal annars á þá leið að Jón Ásgeir, eða félög hans, eigi mögulega innstæður í breskum bönkum upp á 202 milljónir punda, eða tæplega 40 milljarða króna.
Malcolm Walker, forstjóri Iceland Foods, hefur staðfest bréflega við slitastjórnina að innstæðurnar séu í eigu Iceland.
Jón Ásgeir segir í viðtalinu Steinunn hafi reynt að afvegaleiða dómstólana
með vitnisburði sínum.
„Það sem við munum gera er að sækja rétt okkar gegn Steinunni fyrir að fara með rangt mál, ekki aðeins hvað þetta varðar heldur einnig þegar
kemur að skálanum (í Frakklandi) sem hefur verið greiddur upp, og fleiru. Það liggja fyrir upplýsingar um að við vorum í sambandi við Glitni vegna þeirra mála og lánið greitt upp,“ segir Jón Ásgeir í viðtalinu.
Þá vísar hann því á bug að hafa kerfisbundið reynt að skjóta undan eignum eftir hrun bankakerfisins í október 2008. Í viðtali við Fréttablaðið í dag segist Jón Ásgeir engar eignir hafa flutt yfir á Ingibjörgu Pálmadóttur, eiginkonu sína, eins og slitastjórn Glitnis láti að liggja.
Við Viðskiptablaðið segir Jón Ásgeir, að hann og aðrir þeir, sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt fyrir dómstól í New York, séu að reyna að borga skuldir til baka en ekki skjóta undan eignum.