Farþegum, sem fóru með flugi frá Bandaríkjunum til Evrópu, fækkaði um 19% í apríl og er það rakið til öskuskýsins frá Eyjafjallajökli enda lagðist flug í Evrópu af um tíma. Flugfélög töpuðu tugum milljarða króna vegna þessa.
Samtök bandarísku ferðaþjónustunnar segir í tilkynningu, að flugferðum frá Bandaríkjunum til Evrópu hafi fækkað um 7% á fyrstu fórum mánuðum ársins. Farþegum frá Bandaríkjunum til Miðausturlanda fjölgaði hins vegar um 29%, til Afríku um 25%, Asíu um 8%, Eyjaálfu um 10%, Kanada um 5% og Karíbahafsins um 2%. Samdráttur varð hins vegar í flugferðum til Mið- og Suður-Ameríku.
Alls ferðuðust 2,9 milljónir manna með flugvélum frá Bandaríkjunum í apríl sem er samdráttur um 5% miðað við sama mánuð í fyrra.