Bresk stjórnvöld hyggjast ráðast í viðamiklar breytingar á skattkerfinu til þess að auka skilvirkni þess, gera það gegnsærra og þar með treysta samkeppnisfærni hagkerfisins. George Osborne, fjármálaráð
herra, hefur einnig lýst því yfir að stjórnvöld vilji lækka skatt á fyrirtæki niður úr 28% í 24% á næstu árum.
Fjármálaráðuneytið hyggst setja á laggirnar sérstaka stofnun sem hefur umsjón með breytingunum og er henni sérstaklega ætlað að draga úr sértækum skattívilnunum og undanþágum með það að leiðarljósi að ná fram almennum skattalækkunum í þeim tilfellum sem það er hægt.
Eins og fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar um breytingarnar þá er breska skattakerfið afar flókið og hefur flækjustigið vaxið mikið á undanförnum áratug. Stofnuninni sem hefur umsjón með kerfisbreytingunum er ætlað að skila tillögum að fækkun undanþágna í skattkerfinu í haust og svo tillögum að einfaldara skattaumhverfi fyrir lítilfyrirtæki næsta vor.