Eurostar, sem sér um lestarferðir um Ermarsundsgöngin, segir að farþegum milli Bretlands og meginlands Evrópu hafi fjölgað um 6% á fyrri hluta ársins miðað við sama tíma í fyrra. Er aukningin meðal annars rakin til þess, að flugumferð í Evrópu lá niðri í tæpa viku i apríl vegna öskuskýsins frá Eyjafjallajökli.
Tekjur Eurostar jukust um 18% á tímabilinu og námu 404 milljónum punda. Fyrirtækið segir, að farþegum hafi fjölgað um 100 þúsund dagana 15.-20. apríl þegar flugumferð var bönnuð vegna öskunnar.
Eurostar var mjög í fréttum í desember þegar lestir biluðu ítrekað í Ermarsundsgöngunum. Þurfti fyrirtækið að stöðva ferðir í þrjá daga á meðan reynt var að komast fyrir bilanirnar.