Afhending á fjórum Boeing 787 Dreamliner-vélum, sem Icelandair Group-samstæðan hefur pantað, hefur dregist um tvö og hálft ár og alls er óvíst hvenær fyrsta vélin verður afhent.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir hugsanlegan skaðabótarétt af þessum sökum eitthvað sem þurfi að skoða, en það sé alls ekkert gefið í þeim efnum, að því er fram kemur í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.
„Við erum að vinna í þessum málum, en fyrr en við fáum á hreint hvenær vélarnar koma er erfitt að gera áætlanir. Icelandair Group hefur pantað fjórar vélar, eina fyrir Travel Service og þrjár fyrir Icelandair. Þá hefur Icelandair möguleika á að fá þrjár vélar til viðbótar og Travel Service eina. Við teljum ennþá að þetta séu góð kaup og að Dreamliner-vélarnar eigi eftir að reynast árangursríkar í rekstri. Það er vel hugsanlegt að við munum nýta möguleikann á kaupum á viðbótarvélum, en fyrsta mál á dagskrá er að vinna úr þeim vélum sem við höfum þegar pantað,“ segir Björgólfur.